Klifur fyrir fullorðna, aldrei of seint að byrja.

Fréttir

Klifur fyrir fullorðna, aldrei of seint að byrja.

Smiðjuloftið hefur opnað aftur eftir sumarfrí og framundan er flott dagskrá fyrir haustið.

Kynningarkvöld fyrir nýja klifrara

Kynningarkvöld fyrir nýja klifrara eru haldin fyrsta og þriðja hvern miðvikudag í hverjum mánuði. Klifrað er með þjálfara frá Smiðjuloftinu og farið er í stutta kynningu á húsinu, helstu reglum og umgengni í salnum. Því næst er tekin klifuræfing þar sem skoðað er hvernig klifurleiðir virka og hvernig er best að taka fyrstu skrefin í íþróttinni.
Ekki er nauðsynlegt að skrá sig á byrjendakvöldin.

Verð: 1500kr (klifurskór fylgja með)

Klifurgrunnur – Línuklifur er frábær líkamsrækt

Á Smiðjuloftinu er hæsti línuklifurveggur landsins og það er von okkar að hann verði í fullri notkun í vetur, enda frábær skemmtun og góð líkamsrækt að glíma við klifur í hæstu hæðum. Til þess að línuklifra þarf ákveðna þekkingu og kunnáttu og því býður Smiðjuloftið í samstarfi við Klifurfélag ÍA upp á grunnnámskeið í línuklifri.

Klifurgrunnur hefst 4. september. Æft er saman í litlum hóp (max 8 manns) og megináherslan er á línuklifur. Klifurgrunnur stendur yfir í fjórar vikur, 12 klukkustundir í allt, og að því loknu eiga þátttakendur að vera orðnir nægilega sjálfstæðir til að klifra á línuvegg Smiðjuloftsins.

Í Klifurgrunni læra þátttakendur helstu atriði línuklifurs í ofanvaði (e. top-rope) og grjótglímu (e. bouldering). Farið er yfir hvernig hitað er upp fyrir klifur, styrktaræfingar, liðleikaæfingar og einföld tækniatriði í klifri.

Innifalið í Klifurgrunni er allur búnaður (skór, belti o.s.frv) og aðgangur að Smiðjuloftinu á opnunartímum fyrir utan æfingar á meðan á námskeiði stendur.

Verð: 22.000kr (20% afsláttur fyrir 6 mánaða korthafa)

Nánari upplýsingar og skráning: smidjuloftid@smidjuloftid.is eða 6239293 

Grjótglíma er eitt vinsælasta æfingaform í heiminum

Eitt vinsælasta og aðgengilegasta form klifurs er grjótglíma (e. bouldering), en þá er klifrað án nokkurs búnaðar, engar línur, ekkert klifurbelti, ekkert vesen. Það eina sem þarf eru klifurskór. Grjótglíma fer fram á lágum veggjum með dýnu undir til að taka við falli. Grjótglíma einkennist af stuttum leiðum með nokkrum erfiðum og krefjandi hreyfingum, þar sem reynir mikið á styrk, liðleika og útsjónarsemi. Í æfingasölum um allan heim hefur áhugi á grjótglímu vaxið gríðarlega og það sama má segja hérlendis. Grjótglíma er íþrótt sem hentar bæði körlum sem konum.

Á Smiðjuloftinu má finna flotta aðstöðu til grjótglímu og við bjóðum upp á æfingahóp í grjótglímu fyrir 18 ára og eldri sem vilja æfa í hóp undir leiðsögn þjálfara. Á æfingunum er farið yfir grunnatriði grjótglímunnar, upphitun, tækni, styrk og liðleikaæfingar. Skemmtilegar og krefjandi æfingar við allra hæfi þar sem klifrarar glíma við leiðir við sitt hæfi. Æft verður á mánudögum kl. 20-21.30.

Verð fyrir önnina: 18.000kr (20% afsláttur fyrir 6 mánaða korthafa). Innifalið eru klifurskór fyrir þátttakendur á æfingum.

Hámark 12 í hverjum hóp til að tryggja gæði æfinga.

Nánari upplýsingar og skráning: smidjuloftid@smidjuloftid.is eða 6239293

Smiðjuloftið